Unnur Elísabet
Unnur Elísabet
Unnur Elísabet Gunnarsdóttir er leikstjóri, sviðshöfundur, danshöfundur, leikkona og tónlistarkona. Unnur er með yfirgripsmikla reynslu sem sviðslistakona og hefur komið víða við bæði í leikhúsi og sjónvarpi þar sem hún leikur, dansar, syngur, skrifar og stjórnar ýmsum listrænum verkefnum. Hún hefur unnið í fjölda verkefna með Íslenska dansflokknum og Leikfélagi Reykjavíkur, bæði sem dansari, leikari og danshöfundur.
Síðastliðin árin hefur aðaláhersla hennar verið á leikstjórn og að skapa eigin frumsamin verk frá grunni. Hún stofnaði örverkahátíðina ÉG BÝÐ MIG FRAM sem var í gangi í 5 ár. Hún útskrifaðist með mastersgráðu í leiklist með áherslu á leikstjórn og skapandi skrif árið 2020 frá Institue of Arts Barcelona. Unnur leikstýrði Eurovision og fylgdi Systrum til Ítalíu árið 2022 og var listrænn hönnuður fyrir Idolið á Stöð tvö 2023 og 2024. Unnur leikstýrði sýningunni “Them” með Spindrift theatre sem hefur ferðast víða um heiminn.
Unnur hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir sín störf. Þar má nefna Grímuverðlaun og tilnefningar. Einnig fékk sýningin hennar ,,ÉG BÝÐ MIG FRAM" aðal verðlaunin á Reykjavík Fringe festival sem besta sýningin. Einnig hefur Unnur leikstýrt leiksýningum Verslunarskólans og fjölda tónlistarmyndbanda.
Næst á dagskrá
Hún leikur, dansar og syngur sig í gegnum hræðsluna og nýtir tónlist til að klífa skelfilegustu fjöllin.
„Skíthrædd” er tragíkómískur sjálfsævisögulegur söngleikur eftir Unni Elísabetu, sem deilir persónulegum sögum úr lífi sínu.
Unnur sýnir í verkinu hvernig áskoranir lífsins, hvort sem þær tengjast líkamlegum kvillum, kvíða eða lífshamlandi hræðslu eru ekki óyfirstíganlegar. Unnur tekur þetta alla leið og sýnir það að ef þú getur breytt lífshamlandi hræðslu í Broadway-númer þá er allt mögulegt. Hún leikur, dansar og syngur sig í gegnum hræðsluna og nýtir tónlist til að klífa skelfilegustu fjöllin.
Með henni á sviðinu til halds og trausts eru Annalísa Hermannsdóttir og Einar Lövdahl Gunnlaugsson. Tónlistastjóri er Halldór Eldjárn . Sýningin er í leikstjórn Katrínar Halldóru Sigurðardóttur.